fim. 25. júlí 2024 12:12
Af hverju ættu allir að vilja láta jarða sig í kirkjugarði?
Með „viðskiptahugmynd dagsins“

Þau Kristín Sif og Þór Bæring eru íhugul í morgunþættinum Ísland vaknar þegar þau ræða jarðsetningu og hvaða úrræði séu í boði fyrir fólk sem vill ekki vera jarðað í kirkjugarði.

Kristín kveðst hafa lesið áhugaverða frétt á mbl.is um öðruvísi greftrunarstaði í Danmörku. Les hún upp úr umfjölluninni að Danir vilja síður vera jarðaðir í hefðbundnum kirkjugörðum nú en áður og þeir kjósi frekar að láta greftra sig í skóglendi.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/07/22/danir_lata_grafa_sig_vida/

Ósniðugt að láta grafa sig úti í garði

Kristín lýsir því að hún hafi forvitnast um greftrun í kjölfar lesturs greinarinnar. Þá hafi meðal annars vaknað spurning um hvort það mætti láta grafa sig hvar sem væri.

„Ef mig langar bara að láta jarða mig úti í garði, það má held ég alveg örugglega ekki,“ segir Kristín og bætir við að leiðinlegt væri fyrir framtíðar eigendur hússins að finna lík hennar í garðinum.

„Þetta þarf alltaf að vera eitthvað svona pínu flókið,“ segir hún og útskýrir að til dæmis þurfi að sækja um sérstök leyfi til að dreifa ösku og að það ferli geti tekið „ógeðslega langan tíma.“

Kirkjugarðurinn ekki endilega fyrir alla

Kristín varpar fram spurningunni hvort fólk, sem ekki er í þjóðkirkjunni, vilji vera grafið í kirkjugarði. Leggur hún þá sérstaka áherslu á fyrri hluta samsetta orðsins kirkjugarður, sem er beygingarmynd af orðinu kirkja.

Stingur hún þá upp á því við Þór að þau stofni félag líkt og er í Danmörku, sem býður fólki að láta greftra sig í skóglendi og íslenskri náttúru.

Þór tekur hugmyndinni fagnandi og spyr: „Erum við ekki bara að tala um viðskiptahugmynd dagsins?“

Heyra má samtal þeirra Þórs og Kristínar í heild í spilaranum hér fyrir neðan.

 

 

 

til baka