fim. 25. júlí 2024 14:14
Hundurinn Þoka er líklega vinsælasti starfsmaður Sigló Sea.
Hundurinn fær að fara á kajak

Laken Louise Hives og Tom Hoyland, maki hennar, koma bæði frá Stóra-Bretlandi en hafa nú búið á Íslandi í fimm ár og reka Sigló Sea saman. Um er að ræða lítið og persónulegt fyrirtæki í hjarta Siglufjarðar sem sérhæfir sig aðallega í ferðum með kajak og róðrarbrettum en einnig sjósundi.

Vilja að allir njóti starfseminnar

„Okkur langaði að stofna aðeins öðruvísi ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi,“ segir Laken í samtali við K100. Útskýrir hún að þau Tom hafi langað til að hefja starfsemi sem gefur aftur til samfélagsins og reyni að nota allan hagnað fyrirtækisins í þágu almennings.

Lýsir hún því að þau langi til að bjóða heimamönnum á fría viðburði tengda starfsemi Sigló Sea og halda námskeið eða stofna klúbb fyrir börn.

 

„Eins og er, þá erum við bara með eitt verkefni í gangi sem er sérstaklega í þágu almennings, en við höldum utan um hóp sem iðkar sjósund,“ segir Laken og lýsir því að hver sem er geti prófað sjósund með aðstoð Sigló Sea.

„Fólk getur fengið búnað lánaðan hjá okkur gjaldfrjálst og við leiðbeinum því í gegnum ferlið,“ segir Laken og bætir við að þannig hjálpi starfsmenn Sigló Sea fólki að koma sér af stað og venjast sjósundi.

Stór ákvörðun en vel þess virði

Laken og Tom hafa bæði mikla reynslu af því að vinna við ferðamennsku en Laken hefur starfað við atvinnugreinina í 15 ár og Tom í 10. Hafa þau unnið við fjölbreytt störf innan greinarinnar en Laken segir að þau hafi bæði unnið mest á vatni.

„Við höfum alltaf verið mikið fyrir útivist þannig að það hefur verið mjög náttúruleg þróun fyrir okkur að vaxa og dafna innan þessarar greinar,“ útskýrir Laken.

Segir hún þau ekki hafa ætlað að stofna fyrirtækið fyrst, heldur ætlað að vinna með fyrrverandi eiganda þess og bjóða upp á ferðir með róðrarbrettum á vegum þess fyrirtækis. Útskýrir hún að eigandann hafi frekar langað til að selja þeim fyrirtækið og leyfa þeim að taka við.

„Þetta var risastór skuldbinding en við fengum þarna tækifæri sem var of gott til að hafna,“ segir Laken.

 

Hundurinn fær að koma með í ferðir

Ljóst er að Sigló Sea er meira en bara starf fyrir Tom og Laken, en kalla mætti fyrirtækið eins konar ástríðuverkefni parsins.

Laken segir til dæmis frá því að þau taki hundinn sinn oft með í ferðir á vegum Sigló Sea.

„Við eigum hund sem heitir Þoka og hún elskar að fara á kajak, þannig að stundum kemur hún með okkur,“ segir hún og bætir við eftir nokkra umhugsun: „Ég held að hún selji fleiri ferðir en vefsíðan okkar.“

Hægt er að fylgjast með starfsemi Sigló Sea á Instagram.

View this post on Instagram

A post shared by Sigló Sea (@siglosea)

 

 

til baka