fim. 25. júlí 2024 16:45
Þór og Kristín fara í sturtu um kvöld en Bolli fer í sturtu um morgun.
Segir betra að fara í kvöldsturtu

Þau Þór Bæring, Bolli Már og Kristín Sif ræða sturtuferðir í morgunþættinum Ísland vaknar en þau eru ekki öll sammála um hvaða tími dags sé bestur til að fara í sturtu.

Kristín spyr Bolla og Þór hvenær um daginn þeir fari í sturtu. Bolli svarar fljótt að hann fari alltaf í sturtu nývaknaður. 

„Ef ég fer á æfingu þá tek ég sturtu þá, þannig að oft tvisvar á dag en alltaf einu sinni,“ útskýrir hann og lýsir því að hann fari gjarnan í kalda sturtu og þannig glaðvakni hann.

Best að fara í heita sturtu fyrir háttinn

Þór kveðst yfirleitt fara í sturtu að kvöldlagi og Kristín líka. Nefnir hún þá að hún hafi lesið að morguninn sé ekki endilega besti tími dagsins til að fara í sturtu.

„Sérstaklega ekki ef þú vilt hugsa um andlega líðan og góðan svefn og sýna þér mildi,“ segir hún og ráðleggur Bolla að tileinka sér frekar að þrífa sig rétt fyrir svefninn en snemma um morgun. 

Bolli hljómar síður en svo sannfærður og útskýrir Kristín þá að hún hafi lesið að kvöldsturta stuðli að bættum svefni.

„Heit sturta hjálpar að lækka hitastigið og gefur svona náttúrulegt merki um að nú sé kominn tími til að fara að sofa,“ segir hún.

Heyra má athugasemdir Bolla við fróðleik Kristínar og samtalið í heild í spilaranum hér fyrir neðan.

 

 

til baka