fös. 26. júlí 2024 09:55
Margir hafa prófað að kaupa eða selja á sölu- og markaðstorginu bland.is.
Þolir ekki að selja notað á netinu

Þór Bæring og Kristín Sif ræða endursölusíður á borð við bland.is og Brask og brall á Facebook í morgunþættinum Ísland vaknar. Hafa þau bæði reynslu af viðskiptum á slíkum síðum og kveðast ekki alls kostar sátt með viðskiptahætti fólks.

Flestir Íslendingar kannast við að selja eitthvað á netinu og er Kristín ekki undantekning en segist ekki hafa gaman af því.

„Ég er með ofnæmi fyrir því,“ segir hún. 

Tillitsleysi í garð seljenda

Þó Þór taki ekki beinlínis undir með Kristínu sammælist hann henni um að það geti verið mjög krefjandi að selja á slíkum síðum. Lýsir hann því að hafa reynt að selja húsgögn úr dánarbúi undanfarnar vikur.

Nefnir hann að fáránlega margar fyrirspurnir berist um hlutina sem eru til sölu en segir það þó ekki það leiðinlegasta við að selja á netinu. Útskýrir hann að honum finnist leiðinlegast að eiga í samskiptum við fólk sem stendur ekki við loforð.

„Málið er að það eru svo margir sem – til dæmis inni á Blandinu – gera tilboð í einhverja vöru, ég samþykki tilboðið og svo heyrist bara aldrei í þeim aftur,“ segir hann og bætir við:

Þannig að ég er að halda einhverri vöru – til dæmis svona hillu sem ég er að selja – og það eru í alvörunni fjórir búnir að staðfesta kaupin og allir ætla að koma en koma aldrei.“

„Það er leiðinlegt, það heitir tillitsleysi,“ segir Kristín þá.

Halda þau Kristín og Þór áfram að ræða endursölusíður og Kristín kemur með skemmtilega reynslusögu af viðskiptum á slíkri síðu en heyra má samtalið í heild í spilaranum hér fyrir neðan.

 

 

til baka