fös. 26. júlí 2024 17:00
Bolli sannaði sig sem mesti sjómaðurinn í Instagram Story hjá K100 í gær.
Bolli kveðst vera harðasti sjómaðurinn

Þau Bolli Már, Kristín Sif og Þór Bæring ræddu sjómennsku, veiði og siglingu í morgunþættinum Ísland vaknar í gær. Mættu þau til Siglufjarðar seinna um daginn og prófuðu að fara í siglingu með trillu.

https://k100.mbl.is/frettir/2024/07/18/kristin_thor_og_bolli_skemmta_a_siglufirdi/

Þáttastjórnendurnir þrír tróðu upp á Segli 67 á Siglufirði í gær en áður en skemmtikvöldið hófst fóru þau Kristín, Bolli og Þór í siglingu um fjörðinn um borð í trillu. Voru þau öll mjög spennt í þætti gærmorguns, áður en komið var til Siglufjarðar.

Bolli spenntur fyrir sínum heimavelli 

Bolli var fyrstur til að tjá sig um siglinguna í þættinum og sagði að honum fyndist gott að vera kominn á „gamla góða heimavöllinn.“

Þór hljómaði þá hissa að heyra Bolla tala um heimavöll í þessu samhengi og spurði hvort hann hefði einhvern tímann verið á sjó. Kom þá í ljós að hann hefði unnið í fiskvinnslu en ekki á sjó. 

Kristín hlífði Bolla þá alls ekki og gerði grín að honum fyrir að hafa látið eins og hann væri reyndur sjómaður þegar hann hafði einungis verkað og landað fiski á landi og á báti við höfn.

Sannaði sig sem sjómaður

Bolli stóð í ströngu stríði allan þáttinn við að verja sig og sagðist vera líklegastur af þeim þremur til að veiða um borð í trillunni.

Í lok þáttarins kom hann með hálfgerða áskorun fyrir hin tvö, sem leiða ætti í ljós hver þeirra væri mesti sjómaðurinn í morgunþættinum.

„Það verður líka gaman að sjá hver þorir að hoppa út í,“ sagði hann og bætti við að það gerðu „alvöru sjómenn.“

Þríeykið birti nokkur myndskeið af sér um borð í trillunni í gær á Instagram-aðgangi K100. Mátti þá meðal annars sjá þau Bolla og Kristínu stökkva út í sjóinn.

Heyra má samtal Bolla, Þórs og Kristínar í spilaranum hér fyrir neðan.

 

til baka