Á sama tíma og Rússar halda stríði sínu gangandi í Úkraínu virðist baráttan við verðbólguna innanlands ætla að reynast þeim ofviða. Verðbólga mældist yfir 9% í Rússlandi í júní og stýrivextir seðlabankans voru hækkaðir í dag í 18%.
Wall Street Journal (WSJ) greinir frá.
Á síðasta ári tvöfaldaði Seðlabankinn stýrivexti en verðbólgan hélt áfram að hækka. Matvörur eins og kartöflur hafa hækkað í verði um 91% á árinu og flugfargjöld hafa hækkað um 35%.
Skortur á vinnuafli
Verðbólgudraugurinn fylgir stríðshagkerfi Rússa en vöruverð og launakostnaður hefur hækkað vegna útgjalda ríkisins til stríðsrekstur og vegna skorts á vinnuafli.
Vinnuaflsskortinn má rekja til þess fjölda hermanna sem eru á víglínunni.
Refsiaðgerðir og þvinganir hafa gert alþjóðlegar greiðslur flóknari fyrir Rússa sem hefur valdið auknum kostnaði fyrir vöruinnflutning.
Verðbólga verður há meðan stríðinu stendur
Verð hækkar ekki nógu hratt til að valda kreppu eða félagslegri ólgu, en verðhækkanir eru þó til marks um vaxandi ójafnvægi í hagkerfinu. Viðvarandi verðbólga þýðir líka að það verður kostnaðarsamara að fjármagna stríðið sem leiðir til enn meiri hernaðarútgjalda.
„Rússnesk stjórnvöld hafa enga góða kosti í baráttunni við verðbólguna. Þau geta ekki stöðvað stríðið, þau geta ekki leyst vandamálin á vinnumarkaðnum og þau geta ekki hætt að hækka launin,“ sagði Alexandra Prokopenko, fyrrverandi fulltrúi hjá seðlabanka Rússlands, í samtali við WSJ.
„Svo lengi sem stríðið heldur áfram mun verðbólga vera há,“ sagði hún.