lau. 27. júlí 2024 06:00
Úlfar Finsel og Kristín Rut Jónsdóttir hafa sett myndarlegt einbýli sitt á sölu.
Úlfar og Kristín í Módern selja nýtískulegt einbýli Garðabæ

Úlfar Finsen framkvæmdastjóri og eigandi húsgagnaverslunarinnar Módern og eiginkona hans, Kristín Rut Jónsdóttir, hafa sett glæsihús sitt í Garðabæ á sölu. 

Um er að ræða 195 fm einbýli sem teiknað var af Kjartani Sveinssyni árið 1974. Rut Káradóttir innanhússarkitekt teiknaði húsið að innan og má segja að allt sé í stíl en innréttingar tónar vel við gólfefni og innihurðar, gluggatjöld og auðvitað fín húsgögn frá Minotti og fleiri merkjum. 

Sérsmíðaðar innréttingar eru í húsinu en í eldhúsinu er innrétting frá ítalska innréttingaframleiðandanum Poliform. Hún er annarsvegar sprautulökkuð í sveppagráum lit og annars vegar með viðaráferð. Í eldhúsinu er innbyggður vaskur og ílangt gashelluborð. Þar er líka vínkælir og sérsmíðaðar hillur með innbyggðri lýsingu í niðurteknu lofti. Í eldhúsinu er stór gluggi og fyrir neðan hann er sérsmíðaður setubekkur sem býður upp á óhindrað útsýni yfir Heiðmörk og út á Bláfjöll.

 

 

 

Í stofunni eru sérsmíðaðar hillur í kringum sjónvarp og skrautmuni sem eru með marmaraflísum í botninn. Í sama rými er vinnuaðstaða og heimabar sem hægt er að loka þegar enginn er þyrstur. 

Í anddyrinu er rimlafleki sem hægt er að renna til sem setur svip sinn á húsið. 

Eins og sjá má á myndunum er heildarmynd heimilisins falleg og smart og engin feilnóta slegin í hönnun og stíl. 

Sjá nánar á fasteignavef mbl.is: Efstilundur 9

til baka