fös. 26. júlí 2024 23:59
Ólga hefur myndast á milli þýskra og tyrkneskra matvælaframleiðanda um gerð döner kebabsins.
Kebab veldur ólgu innan Evrópu

Þjóðverjar hafa mótmælt tyrkneskri umsókn til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að döner kebab fái svipaða ESB-viðurkenningu og napólíska pítsan og spænska jamon serrano skinkan. Talið er að það sé vegna krafna Tyrklands um nákvæma gerð réttarins sem er vinsæll götumatur í Þýskalandi. 

Miðillinn Euronews sagði fyrst frá.

Endurspeglar ekki afstöðu þýskra stjórnvalda

Í apríl skilaði Tyrkland inn umsókn um að skrá heitið döner í Evrópu þannig að það geti aðeins verið notað af þeim matvælaframleiðendum sem fara eftir nákvæmum skráðum aðferðum og kröfum þegar kemur að gerð kebab réttarins.

Samráðsáfanga fyrir aðildarríki Evrópusambandsins til að mótmæla skráningunni lauk 24. júlí og talsmaður framkvæmdastjórnarinnar staðfesti að mótmæli við umsóknina hefði borist, en ekki var ekki gefið upp hvaðan mótmælin komu.

Herma nú heimildir Euronews að mótmælin hafi komið frá þýska matvæla- og landbúnaðarráðuneytinu í Bonn í Þýskalandi. Hafi þýska ráðuneytið tekið þá afstöðu í kjölfar athugasemda  frá nokkrum samtökum þýskra matvælaframleiðenda en tekið fram að andstaða við tyrknesku umsóknina endurspeglaði afstöðu þeirra frekar en þýskra stjórnvalda.

Miklar kröfur gerðar til réttarins

Verði umsókn Tyrklands samþykkt geta aðeins nauta- og lambasneiðar sem skornar eru lárétt í 3-5 mm þykkar sneiðar verið merktar sem döner, en kjúklingasneiðar verða að vera 1-2 cm þykkar.

Talið er að þessi tæknilegu smáatriði sem tilgreind eru í umsókninni séu líklega orsök  ágreiningsins á milli þýskra og tyrkneskra matvælaframleiðenda um hvernig vinsælasti götumatur Þýskalands er búinn til.

Fá sex mánuði til að slíðra sverðin

Mun nú framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þurfa að meta hvort mótmæli Þýskalands séu réttmæt og reyna svo að koma á samningaviðræðum á milli Þýskalands og Tyrklands til að sjá hvort löndin geti komist að einhverri sameiginlegri niðurstöðu en frestur til þess er sex mánuðir.

Hvort sem löndin komist að einhverri sameiginlegri niðurstöðu eða ekki mun lokaákvörðun um  umsóknarina vera í höndum framkvæmdastjórnarinnar.

til baka