mið. 23. okt. 2024 15:30
Í fréttatilkynningu frá dómnefndinni segir að á síðustu áratugum hafi Kári Stefánsson orðið leiðandi vísindamaður á sviði mannerfðafræði.
Kári hlýtur Fernström-verðlaunin

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) fær Fernström-verðlaunin í ár, ein virtustu verðlaun á Norðurlöndum sem eru veitt á sviði læknavísinda.

Í tilkynningu dómnefndar segir að hann hafi bylt skilningi okkar á erfðafræðilegri fjölbreytni og þætti hennar í heilsu og sjúkdómum, að því er ÍE greinir frá í tilkynningu. 

Þar segir jafnframt, að verðlaunin séu veitt árlega og afhent þann 7. nóvember, í Lundi í Svíþjóð.

Leiðandi vísindamaður á sviði mannerfðafræði

Í fréttatilkynningu frá dómnefndinni segir að á síðustu áratugum hafi Kári orðið leiðandi vísindamaður á sviði mannerfðafræði. Með því að nota byltingarkenndar aðferðir sem leiði saman, erfðaupplýsingar, heilsufarsgögn og ættfræðiupplýsingar hafi hann verulega aukið skilning okkar á því hvernig erfðaþættir hafa áhrif á sjúkdómsáhættu.

Þá hafi rannsóknir hans einnig varpað ljósi á af hverju einstaklingar geta brugðist á mismunandi hátt við sömu læknismeðferð. Kári hafi því ekki einungis markað djúp spor í rannsóknum sínum heldur einnig haft veruleg áhrif á þróun erfðavísinda í heiminum öllum.

Oskar Hansson, prófessor í taugameinafræði við háskólann í Lundi, sem situr í dómnefndinni segir vísindarannsóknir Kára hafa forystu á heimsvísu og þær hafi skapað mikilvæga nýja þekkingu á fjölda sjúkdóma. Þar nefnir hann sérstaklega Alzheimer-sjúkdóminn, en rannsóknir Kára hafi veitt einstaka innsýn í þróun sjúkdómsins og þannig rutt brautina í þróun nýrra meðferða, að því er ÍE greinir frá. 

 

til baka