mið. 20. nóv. 2024 06:30
Ungarnir voru afar krúttlegir við fæðingu í ágúst en hafa breyst töluvert síðan þá, þrátt fyrir að vera alveg jafn krúttlegir, ef ekki krúttlegri núna.
Krúttlegustu verur veraldar eignuðust þríbura

Það dýr sem oft hefur verið kallað og jafnvel kosið sem krúttlegasta dýr veraldar hefur nú bætt þremur nýjum meðlimum í hópinn. Rauðu pöndurnar í Lincoln Children's Zoo í Nebraska eignuðust þríbura þann 10. ágúst 2024, og hafa þær glatt starfsfólk dýragarðsins jafnt sem gesti með tilkomu sinni.

Dýragarðurinn tilkynnti þann 7. nóvember síðastliðinn á Facebook um fæðingu þriggja rauðpönduunga sem fæddust þar í sumar. Þríburarnir, tveir karlkyns og einn kvenkyns, komu í heiminn 10. ágúst 2024 og eru afkvæmi rauðpönduparsins Tian og Rowan.

 

„ÞAÐ ERU ÞRÍBURAR!“ sagði í tilkynningu frá dýragarðinum. Samhliða fréttinni birtu þeir dásamlegar myndir af ungunum þar sem þeir kúra saman stuttu eftir fæðingu. Á öðrum myndum má sjá þá eldri og með sinn einkennandi rauða, hvíta og brúna feld.

Ungarnir hafa vaxið og dafnað vel síðustu mánuði. Samkvæmt yfirlýsingu frá dýragarðinum verja þeir mestum tíma í hreiðrunum sínum, þar sem þeir þroskast og læra nýja hluti. Nú eru þeir þó farnir að taka sín fyrstu klifurskref og stíga út fyrir kassana í stutta stund í einu.

Til að tryggja ungunum bestu aðstæður undirbjó dýragarðurinn sex hreiðurkassa fyllta með bambus og trjáull, sem líkja eftir hreiðrum villtra rauðra panda. Villtar rauðpöndur gera hreiður í trjáholum eða sprungum með plöntuefni til að halda ungunum öruggum, og Tian hefur verið frjáls að velja hvaða kassa hún vill nota og flytja unga sína á milli ef hún skynjar ógn eða streitu í umhverfinu.

Auk þess að gleðja gesti hefur þessi fæðing mikla þýðingu fyrir verndun rauðpanda, sem eru í útrýmingarhættu. Samkvæmt Evan Killeen, forstjóra Lincoln Children's Zoo, hefur stofn rauðpanda minnkað um 50% á síðustu 20 árum.

„Fæðing þessara þríburunga er mikilvæg fyrir dýraverndunarátak, og rauðu pöndurnar í dýragarðinum hjálpa til við að vekja athygli á þeim ógnunum sem tegundin stendur frammi fyrir, eins og eyðingu búsvæða,“ sagði Killeen.

Dýragarðurinn áætlar að Tian og ungar hennar verði sýnilegir gestum í desember og er óhætt að segja að þeir muni gleðja og heilla þá upp úr skónum með krúttlegheitum sínum.

Hér fyrir neðan má sjá færslu dýragarðsins og myndirnar.

 

 

People.

 

til baka