Fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik, sem drap 77 manns í Noregi í tveimur árásum árið 2011, mun í dag óska eftir reynslulausn í annað sinn. Búist er við því að hún verði ekki veitt.
Samkvæmt norskum lögum getur Breivik, sem er 45 ára, sótt um reynslulausn úr fangelsi einu sinni á ári eftir að hafa afplánað tíu ár af fangelsisdómnum sem hann hlaut.
Fyrri beiðni hafnað árið 2022
Fyrstu beiðni hans um reynslulausn var hafnað í janúar árið 2022 og sagði dómstóllinn að „augljós hætta“ væri á því að hann myndi endurtaka hegðun sína sem leiddi til árásanna 22. júlí 2011.
„Hann ætlar að biðja um reynslulausn, en það er ekkert sérlega líklegt að hún fáist,“ sagði lögmaður hans, Oystein Storrvik við AFP áður en þriggja daga réttarhöld hefjast í dag.
Mun ávarpa dómstólinn
Breivik mun sjálfur ávarpa dómstólinn, en réttarhöldin fara fram í íþróttasal Ringerike-fangelsisins, af öryggisástæðum.
Hann hefur áður notað tækifærið og lýst yfir öfgafullum skoðunum sínum.
„Við viljum að dómstóllinn íhugi mál hans, hann hefur rétt til þess að…ná framförum og búa við betri aðstæður, til að hann geti átt einhvers konar framtíð,“ bætti Storrvik við.
Breivik var árið 2012 dæmdur í 21 árs fangelsi, sem var þyngsti dómurinn sem hann gat fengið. Hægt er að framlengja dóminn á meðan hann telst vera ógn við samfélagið.
Breivik hefur ekki fengið að eiga samskipti við aðra fanga síðastliðin 12 ár.