þri. 19. nóv. 2024 08:12
Nokkrir nemendur voru fluttir á sjúkrahús eftir að bíl var ekið inn í hóp fyrir utan grunnskólann.
Margir slasaðir eftir að bíl var ekið á hóp fólks

Óttast er að margir hafi slasast eftir að bíl var ekið inn í hóp fólks fyrir utan grunnskóla í Hunan-héraði í suðurhluta Kína.

BBC greinir frá. Engar upplýsingar eru um mannfall enn sem komið er en ríkisfjölmiðlar greina frá því að nokkrir nemendur hafi verið fluttir slasaðir á sjúkrahús.

Ökumaðurinn, sem var á hvítri jeppabifreið, er í haldi lögreglunnar en öryggisverðir skólans og foreldrar barna í skólanum náðu að handsama hann áður en lögregla kom á vettvang.

Þetta er þriðja árásin á mannfjölda í Kína á einni viku og hefur það ýtt undir áhyggjur af almannaöryggi.

„Um tugur manna varð fyrir bílnum og sumir slösuðust alvarlega en sem betur fer komu sjúkrabílar fljótt á staðinn,“ segir Zhu, foreldri eins barnanna í skólanum, við BBC.

Á laugardag létu átta manns lífið og 17 særðust í hnífaárás í iðnskóla í austurhluta Kína. Lögreglan sagði að hinn grunaði væri 21 árs fyrrverandi nemandi við skólann sem ætlaði að útskrifast á þessu ári en hafði fallið á prófinu.

til baka