Eva Ruza flytur pistla um stjörnurnar á hverjum degi á sinn einstaka hátt á K100.
Það halda áfram að hrúgast inn niðurstöður um kynþokkafyllstu menn í heimi úr hinum ýmsu könnunum, og nú hefur kynþokkafyllsti sköllótti maður heims verið krýndur. Og sá mun einn daginn fá verðmæta kórónu á höfuð sér og bera konungstitil.
Vilhjálmur prins fékk titilinn en hann hlaut sama titil í fyrra og 2021.
Í öðru sæti var sprelligosinn Dwayne The Rock Johnson og í þriðja sæti Shaquille O'Neal, fyrrverandi NBA-leikmaður.
Sköllóttir menn hafa stolið hjörtum fólks um allan heim. Menn eins og Stanley Tucci og John Travolta heilla, en Villi átti titilinn í ár.
Niðurstaðan kemur eftir viðamikla rannsókn á netinu, en þar er horft í hversu margir leituðu uppi myndir af sköllóttum mönnum sem líta vel út. Til að mynda leituðu yfir 16.800 af nafni Vilhjálms, ásamt því að skrifa „ber að ofan“ eða „nakinn“ í leitarvél Google.
Prinsinn af Wales lét sér nýlega vaxa skegg og það varð allt vitlaust og féll vel í kramið hjá aðdáendum kappans. Það verður gaman að sjá hvort hann haldi titlinum að ári, en hann á gríðarlega stóran aðdáendahóp um allan heim – sem geta samt sleppt því að leita að myndum af honum nöktum. Ég held að þær séu ekki til.
Ég vil samt sjá hann klára málið og raka hárið bara alveg af. En það er bara ég.