Edda Björk Þórðardóttir, Lára G. Sigurðardóttir og Kristín Ýr Pétursdóttir eru stofnendur Samveru. Í tilefni af stofnun fyrirtækisins buðu þær til boðs þar sem vörunni var fagnað. Um er að ræða öskju sem inniheldur fjögur gjafakort á samverustundir en þau eru myndskreitt af listakonunni Kridolu.
„Samverukortin eru þannig að þú gefur samverustund með þér, gefur af tíma þínum, ákveður hvar og hvenær þið hittist, en einnig er hægt að bjóða upp á óvissu. Gjöfin er þannig í senn umhverfisvæn og hamingjueflandi,“ segir Lára G. Sigurðardóttir læknir sem er ein af stofnendum fyrirtækisins.
„Hugmyndin kviknaði þegar við áttuðum okkur á að við áttum meira en nóg af dóti og það sem okkur vantaði helst væri tími með okkar fólki. Okkur fannst vanta falleg kort með þeim boðskap og sem hefðu í leiðinni húmor,“ segir Lára.
Sjólaug Lúðvíksdóttir uppistandari skemmti gestum í boðinu en þar var einnig myndlistarsýning á samverukortsverkum Kridolu.