Hver vill ekki eyða jólunum í New York? Hér á eftir er að finna nokkrar tillögur að því hvað hægt sé að gera yfir hátíðarnar í Stóra eplinu. Borgin sem aldrei sefur lifnar svo sannarlega við yfir hátíðarnar.
Sýningar
Jólahátíð í Radio City Music Hall nær aftur til ársins 1932. Upplifðu sýningu með skautahlaupurum, þrívíddarskjá sem sýnir ævintýri jólasveinsins og frábær dansatriði.
Ef stemning er fyrir annarri jólasýningu þá er Hnetubrjóturinn eftir George Balanchine fluttur af New York-ballettinum í Lincoln Center.
Jólamarkaðir
Það er ekki hægt að fá jólaandann yfir sig öðruvísi en að kíkja á jólamarkaðina. Það er meira að segja hægt að borga fyrir leiðsögn um þá ótal markaði sem spretta upp á aðventunni í borginni.
Vinsælastir eru eflaust markaðirnir Union Square Holiday og Columbus Circle Holiday en eftirlætismarkaður þeirra sem til þekkja er jólaþorpið í Bryant Park.
Bryant Park
Í Bryant Park er hægt að fara á skauta sér að kostnaðarlausu, séu skautar hafðir meðferðis, annars er einnig hægt að leigja par.
Skautasvellið er umkringt jólabásum sem selja alls kyns listmuni og handverk ásamt heitum drykkjum sem verma kroppinn.
Jólatréð á Rockefeller Center
Að sleppa því að bera jólatréð á Rockefeller Center augum er líkt við að ferðast til Parísar án þess að heimsækja Effeil-turninn.
Þegar tréð er tendrað hefst jólahátíðin fyrir alvöru. Tréð á Rockefeller Center kemur að þessu sinni frá West Stockbridge, Massachusetts.
https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2024/11/18/rockefeller_tred_komid_heilu_og_holdnu_til_new_york/
Skautar á Rockefeller Center
Það er fátt jafn rómantískt en að fara á skauta á Rockefeller Center við ljósadýrðina frá jólatrénu stóra. Hins vegar er það kostnaðarsamara en í Bryant Park og raðirnar inn á ísinn geta verið langar.
Central Park
Upplifunin af að rölta hönd í hönd um Central Park með kakó í annarri hendi er engri lík. Þar er enn og aftur hægt að fara á skauta á Wollman Rink-svellinu. Svellið opnaði árið 1949 og er staðsett nálægt suðurinngangi garðsins.
New York Botanical Garden
Í skrúðgarðinum í borginni, sem staðsettur er í Bronx, er hægt að sjá hátíðarlestarsýningu. Litlar módellestir sem líða eftir langri leið í gegnum upplýst líkan af borginni.
Í garðinum er einnig hægt að fara á jólatónleika, hlusta á kóra flytja falleg jólalög og ljóðaupplestur.
Buddy The Elf Tour
Það eru tuttugu ár síðan Elf með Will Ferrell í aðalhlutverki kom á hvíta tjaldið. Hægt er að bóka túr um borgina og heimsækja staði sem fram koma í myndinni.