Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að samtökin séu hæstánægð með niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur um að ný búvörulög sem voru samþykkt á Alþingi í mars, þar sem kjötafurðastöðvum var meðal annars veitt undanþága frá samkeppnislögum, hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá Íslands.
Benedikt segir að Samtök verslunar og þjónustu hafi ekki verið hrifin af breytingarlögunum sem fóru í gegn og að þau hafi hvorki þjónað hagsmunum bænda né neytenda.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/18/afgreidsla_buvorulaga_i_andstodu_vid_stjornarskra/
„Það er erfitt að greina nákvæmlega áhrifin á þessum tímapunkti en við heyrum þær raddir að menn hafi áhyggjur og það sé orðið erfiðara en áður að ná fram hagstæðum kjörum í viðræðum við afurðastöðvar og jafnvel heildsölur,“ segir Benedikt við mbl.is.
Hann segir að matvöruverslunin hafi haft orð á því að hún telji sig fara að finna einhver áhrif og það sjáist á vísitölu neysluverðs að verð á kjöti hafi farið hækkandi.
„Þetta er líka að ákveðnu leyti kvikur markaður að því leyti að hann er háður alls konar ytri aðstæðum,“ segir hann.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/19/formanni_var_radlagt_ad_leggja_fram_nytt_frumvarp/
Ekki hafa komið fram nein viðbrögð frá Samkeppniseftirlitinu í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur. Spurður hvort hann telji að Samkeppniseftirlitið muni áfrýja niðurstöðunni segir hann:
„Maður myndi halda að það væru rök fyrir því í báðar áttir. Þessi forsenda niðurstöðu héraðsdómsins er ágætlega rökstudd en almennt má velta því fyrir sér hvort það sé tilefni til að áfrýja. Þetta er þó fyrsti dómurinn sem ég veit um þar sem í raun og veru má segja að heilum lögum sé vikið til hliðar en ekki orðum eða einhverju orðalagi.“
Hann segir að niðurstaða héraðsdóms sé bindandi á meðan honum hafi ekki verið hrundið af æðri dómstóli og ef Samkeppniseftirlitið ætli að grípa til einhverra aðgerða eða ráðstafana þá sé haldfastara að hafa niðurstöðu æðri dómstóls undir höndum.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/18/timamotadomur_og_vekur_upp_spurningar/
„Maður myndi halda að ef Samkeppniseftirlitið áfrýjar ekki þá verði það óhjákvæmilega ávísun á langan ágreining en það er ómögulegt að segja til hvað það ætlar að gera. Sama hver niðurstaðan verður þá er örugglega einhver flötur á því að þingmenn telji að það sé skynsamlegt að leiðrétta stöðuna þegar þing kemur saman eftir áramót og við munum bregðast við því ef til þess kemur,“ segir Benedikt.