Guðni Halldórsson, myndbandsklippari, vakti nýverið eldheitar umræður á samfélagsmiðlinum X með óvæntri yfirlýsingu um „matvörur Satans“.
Þar sagði hann lauk og tómata vera mat frá myrkrahöfðingjanum sjálfum, sem fólk ætti að hætta að borða.
Þór Bæring tók undir með Guðna í morgunþættinum Ísland vaknar í gær, þar sem hann ræddi málið við Bolla Má.
„Ég er svo sammála honum, ég er ekki tómata- og laukmaður,“ sagði Þór sem sagðist hafa viljað styðja Guðna, sem fékk heldur betur á baukinn í athugasemdum. Því hafi hann þó ekki þorað.
Tónskáldið Pétur Jónsson var einn þeirra sem svaraði færslu Guðna og gerði hana að umtalsefnil eins og sjá má í færslunni hér fyrir neðan.
Þór vitnaði einnig í svör Guðna í umræðunni sem sagðist verða fyrir miklu mótlæti í vinnunni vegna fyrrnefndra skoðanna sinna.
„Þetta er ég að finna fyrir líka. Þegar ég segi að ég sé ekki laukmaður og ekki tómatamaður þá fæ ég svolítið svona ... Þannig að ég þorði ekki að segja við Guðna að ég væri með honum í þessu,“ viðurkenndi Þór sem herti þó upp hugann og notaði vettvang sinn í útvarpinu til að styðja Guðna opinberlega.
Hér má hlusta á umræðuna í heild sinni.