Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, segir að með notkun Úkraínuhers á langdrægum eldflaugum á rússneskri grundu sé næsti fasi í stríði Vesturlanda gegn Rússlandi hafinn.
„Við túlkum þetta eiginlega sem næsta fasa í stríði Vesturlanda gegn Rússlandi. Við munum bregðast við í samræmi við það,“ sagði Lavrov á fundi G20-ríkjanna í Rio de Janeiro í Brasilíu.
Varnarmálaráðuneyti Rússlands sagði Úkraínuher hafa beitt langdrægum eldflaugum fyrr í dag.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/11/19/ukrainuher_beitir_langdraegum_eldflaugum/
Vísun að stigmögnun
„Þetta gefur auðvitað til kynna að þau vilji stigmögnun,“ sagði Lavrov enn fremur.
Hann sakaði yfirvöld í Bandaríkjunum um að hafa aðstoðað Úkraínuher við notkun eldflauganna, sem eru bandarískar.
Hann hvatti leiðtoga Vesturlanda til að lesa nýja skilgreiningu Rússlands á notkun kjarnorkuvopna sem Vladímir Pútín Rússlandsforseti liðkaði fyrir í fyrradag.
„Ég vona að þeir lesi skilgreininguna í heild sinni.“
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/11/19/vidtaekari_heimild_til_notkunar_kjarnorkuvopna/