þri. 19. nóv. 2024 15:10
Börkur NK kom með 1.550 tonn af síld til Neskaupstaðar í gærkvöldi.
Veiðiferðin gekk eins og í sögu

Síðasta veiðiferð Barkar NK gekk vel að sögn Hjörvar Hjálmarssonar skipstjóra. Skipið kom til hafnar í Neskaupstað með 1.550 tonn af íslenskri sumargotssíld í gærkvöldi og hófst vinnsla um leið.

„Við fengum aflann á 32 klukkustundum í Jökultungunni út af Snæfellsnesinu. Aflinn fékkst í þremur holum en dregið var í 6 – 8 tíma. Í fyrsta holinu fengust 500 tonn, 440 í öðru og 600 í því þriðja og síðasta. Það var fínt veður allan tímann og síldin er falleg Íslandssíld,“ segir Hjörvar í færslu á vef Síldarvinnslunnar.

„Það má segja að þessi veiðiferð hafi gengið eins og í sögu. Ég geri ráð fyrir að vinnslu á þessum afla ljúki aðfaranótt fimmtudags og þá verður sennilega haldið rakleitt vestur fyrir land á ný,” segir Hjörvar.

til baka