þri. 19. nóv. 2024 15:53
Í tilefni af dómi héraðsdóms hefur Samkeppniseftirlitið í dag ritað kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf.
Segir afurðastöðvum að stöðva aðgerðir

Samkeppniseftirlitið hefur ritað kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf þar sem vakin er athygli á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um að afgreiðsla Alþingis á búvörulögum hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá.

Undanþágurnar sem veittar voru með lögunum, og heimila kjötafurðastöðvum að sameinast og hafa tiltekið samráð sín á milli, hafa því ekki lagagildi.

Samkeppnislög gilda því fullum fetum um samstarf og samruna kjötafurðastöðva.

Þetta kemur fram í tilkynningu SKE.

„Jafnframt er vakin athygli á því samkeppnislög banna samninga og samþykktir milli fyrirtækja sem raska samkeppni, sem og samkeppnishömlur af hálfu samtaka fyrirtækja. Einnig er vakin athygli á því að tilkynna þarf Samkeppniseftirlitinu fyrirfram um samruna fyrirtækja yfir tilteknum veltumörkum. Þá leggja samkeppnislög bann við því að samruni komi til framkvæmda á meðan Samkeppniseftirlitið fjallar um hann,“ segir í tilkynningunni.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/18/afgreidsla_buvorulaga_i_andstodu_vid_stjornarskra/

Gert að stöðva það sem fer gegn samkeppnislögum

Í bréfunum sem SKE hefur sent er því beint til kjötafurðastöðva að stöðva þegar í stað hvers konar aðgerðir eða háttsemi sem farið getur gegn samkeppnislögum og stofnast hefur til á grundvelli umræddra undanþáguheimilda.

Þá er óskað eftir upplýsingum hvort viðkomandi fyrirtæki hafi verið skilgreint sem framleiðendafélag í skilningi búvörulaga, en samkvæmt lagabreytingunum var það forsenda þess að kjötafurðastöðvar gætu nýtt sér undanþáguheimildirnar. 

Þá er lagt fyrir fyrirtækið, hafi viðkomandi kjötafurðastöð ráðist í samruna eða samstarf á grundvelli undanþáguheimildanna, að varðveita allar upplýsingar og gögn sem varpa ljósi á þá háttsemi sem í hlut á.

Er kjötafurðastöðvunum gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sem nýtast kunna við athugun á því hvernig bregðast skuli við dómi héraðsdóms. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/18/samkeppniseftirlit_undanthagur_hafa_ekki_lagagildi/

til baka