„Það er verið að byggja rangar íbúðir. Við erum ekki að byggja fyrir íbúðamarkaðinn, við erum að byggja fyrir fjárfestingamarkaðinn,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands.
Greint var frá því í gær að samtals hefðu sjö íbúðir af 160 selst á sex þéttingarreitum í Reykjavík síðan í byrjun síðasta mánaðar og að í raun hefði engin íbúð selst á þremur reitanna.
Langt yfir greiðslugetu almenns vinnandi fólks
Finnbjörn segir Alþýðusambandið (ASÍ) hafa verið búið að margbenda á að það litla sem sé verið að byggja í landinu séu íbúðir fyrir fjárfestingamarkaðinn, frekar en íbúðir fyrir almennt vinnandi fólk.
„Íbúðir sem þessar eru komnar langt upp fyrir greiðslugetu almenns vinnandi fólks þannig ef það á að byggja fyrir almenning þá þarf að byggja ódýrari íbúðir. En það er ekki þar með sagt að þær þurfi að vera lakari heldur þarf að byggja á ódýrari lóðum.
Síðan eru kannski stærðarmörkin líka eitthvað sem þarf að skoða.“
Hægt að byggja hagkvæmar
Segir Finnbjörn að íbúðirnar fari eflaust á einhverjum tíma en þá fari þær ekki til almenns launafólks sökum greiðslugetu þess.
Nefnir hann þá að hægt sé að horfa til óhagnaðardrifinna félaga eins og íbúðafélagsins Bjargs sem byggir fermetrann á mun lægra verði en mörg önnur félög.
„Þannig það er hægt að byggja mikið hagkvæmar heldur en verið er að gera þarna. Eða þá að verktakarnir eru að taka of stóran hlut í sinn skerf.“
Hann segir þróunina hafa verið að eiga sér stað yfir ákveðinn tíma.
„Þetta er búið að vera núna í nokkurn tíma, það er ekki verið að byggja fyrir hinn almenna borgara.“