þri. 19. nóv. 2024 22:58
Andri Lucas Guðjohnsen kemur íslenska liðinu yfir í Cardiff.
Leikplanið fór út um þúfur

„Við byrjum leikinn frábærlega og erum að koma okkur í mjög góðar stöður,“ sagði Andri Lucas Guðjohnsen, framherji íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 4:1-tap liðsins gegn Wales í B-deild Þjóðadeildarinnar í Cardiff í Wales í kvöld.

Íslenska liðið komst yfir í leiknum 1:0, en Wales skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og bætti svo við tveimur mörkum til viðbótart í síðari hálfleik.

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2024/11/19/skellur_i_cardiff_thratt_fyrir_glaesilega_byrjun/

„Það var mikið högg þegar Orri Steinn meiðist og þá fer leikplanið út um þúfur. Við vorum ekki nægilega vel undirbúnir fyrir það en á sama tíma eiga aðrir leikmenn að geta komið inn á og gert sitt. Ég er mjög svekktur með að tapa þessum leik 4:1 því við vorum með fulla stjórna á þessum leik fyrstu 25 mínúturnar.

Það er erfitt að útskýra nákvæmlega hvað gerist en það er eins og við missum sjálfstraustið og þeir taka gjörsamlega yfir leikinn. Það er eitthvað sem við þurfum að fara vel yfir,“ sagði Andri Lucas.

Var tilbúinn í teignum

Framherjinn skoraði eina mark íslenska liðsins strax á 7. mínútu þegar hann kom Íslandi 1:0-yfir í leiknum.

„Þetta var geggjað mark. Við vorum tveir tilbúnir í teignum og Orri á frábæran skalla. Ég var líka tilbúinn að taka seinni boltann, sem og ég gerði. Boltinn lendir reyndar aðeins fyrir aftan mig og færið var þröngt en ég hitti boltann vel. Mér tókst sem betur fer að setja boltann á milli fóta markvarðarins.“

Sáttur með sóknarleikinn

Andri Lucas fékk nokkur færi í leiknum til þess að skora fleiri mörk.

„Ég og aðrir leikmenn liðsins fengum fullt af færum sem við hefðum getað skorað úr. Það er samt þannig að maður getur ekki alltaf skorað úr öllum þeim færum sem við fáum en heilt yfir er ég mjög ánægður með sóknarleikinn okkar. Við komum okkur í mjög hættulegar stöður en það vantaði upp á að skora úr þessum færum,“ bætti Andri Lucas við í samtali við mbl.is.

til baka