Fjöldi íslenskra leikmanna létu til sín taka í 5. umferð riðlakeppni Evrópudeildar karla í handknattleik í kvöld.
Melsungen hafði betur gegn Porto í Íslendingaslag, 32:27, í F-riðli, riðli Vals, og flaug í 16-liða úrslit þar sem liðið er með fullt hús stiga, tíu.
Porto er í öðru sæti með fimm stig og er einnig komið áfram þar sem Vardar vann ekki Val fyrr í kvöld og Porto er með betri árangur í innbyrðis viðureignum gegn Vardar.
Elvar Örn Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað.
Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Porto, sem mætir Val á heimavelli í lokaumferðinni.
Þrjú Íslendingalið úr leik og eitt áfram
Annar Íslendingaslagur fór fram í C-riðli þar sem Benfica lagði Kadetten Schaffhausen örugglega að velli, 39:32, í Lissabon.
Benfica er með fullt hús stiga á toppnum og fer áfram í 16-liða úrslit. Kadetten er í þriðja sæti með fjögur stig og er úr leik.
Stiven Tobar Valencia skoraði tvö mörk fyrir Benfica og Óðinn Þór Ríkharðsson þrjú fyrir Kadetten.
Í H-riðli, riðli FH, vann Sävehof sterkan útisigur á Toulouse, 33:30, en Toulouse fylgir Gummersbach samt sem áður í 16-liða úrslitin.
Tryggvi Þórisson skoraði eitt mark fyrir Sävehof, sem er úr leik líkt og FH.
Í B-riðli tapaði svo Bjerringbro/Silkeborg fyrir Montpellier á heimavelli, 22:34.
Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði tvö mörk fyrir Bjerringbro/Silkeborg, sem hafnar í þriðja sæti riðilsins og er úr leik.