Dominik Szoboszlai reyndist hetja Ungverjalands þegar liðið gerði jafntefli gegn Þýskalandi, 1:1, í 3. riðli A-deildar Þjóðadeildar karla í knattspyrnu í Búdapest í kvöld.
Szoboslai jafnaði metin fyrir Ungverjaland úr vítaspyrnu þegar níu mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks en áður hafði Felix Nmecha komið Þýskalandi yfir.
Þá gerðu Bosnía og Holland jafntefli í Zenicu, 1:1, þar sem Brian Brobbey kom Hollandi yfir á 24. mínútu áður en Ermedin Demirovic jafnaði metin fyrir Bosníu á 67. mínútu.
Þýskaland endaði í efsta sæti riðilsins með 14 stig og Holland í öðru sætinu með níu stig. Bæði lið verða því í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitin á föstudaginn. Þau verða leikin dagana 20. mars og 23. mars á næsta ári, líkt og umspilsleikirnir.
Ungverjaland hafnaði í 3. sætinu með sex stig og er á leið í umspil um sæti í A-deildinni en Bosnía hafnaði í neðsta sætinu með tvö stig og er fallið í B-deild.