Cleveland Cavaliers tapaði sínum fyrsta leik í bandarísku NBA-deild karla í körfubolta fyrir meisturum Boston Celtics, 120:117, í Boston í nótt.
Cleveland hafði unnið fyrstu 15 leiki sína og var fjórða liðið í sögunni til að gera svo. Boston er í öðru sæti Austurdeildarinnar með 12 sigra og þrjú töp.
Jayson Tatum fór mikinn í liði Boston með 33 stig, 12 fráköst og sjö stoðsendingar. Donovan Mitchell skoraði 35 stig, tók átta fráköst og gaf þrjár stoðsendingar fyrir Cleveland.
Gott gengi Lakers
Los Angeles Lakers vann þá góðan sigur á Utah Jazz, 124:118, í Los Angeles.
Lakers-liðið er með tíu sigra og fjögur töp í þriðja sæti Vesturdeildarinnar en Utah Jazz er í neðsta sæti.
Anthony Davis fór mikinn fyrir Lakers með 26 stig, 14 fráköst og sex stoðsendingar.
Önnur úrslit:
Brooklyn Nets - Charlotte Hornets 116:115
Memphis Grizzlies - Denver Nuggets 110:122
Dallas Mavericks - New Orleans Pelicans 132:91
San Antonio Spurs - Oklahoma City Thunder 110:104