Sannkölluð árshátíðarstemning sveif yfir Counter Strike-samfélaginu á úrslitakvöldi Ljósleiðaradeildarinnar og eins og sjá má á meðfylgjandi myndasyrpu hélt veislustjórinn Árveig „Nutella“ gleðinni gangandi, af öryggi landsliðsfyrirliðans, frá miðjum degi fram á nótt.
Spennan í Ljósleiðaradeildinni náði hámarki að kvöldi laugardagsins 16. nóvember þegar úrvalsdeildarliðin Dusty og Þór börðust um Íslandsmeistaratitilinn í Counter Strike í Arena á Smáratorgi.
Fjörið byrjaði þó miklu fyrr og stóð mun lengur en mikið var um dýrðir og stanslaust stuð allan keppnisdaginn og langt fram eftir kvöldi.
Veislugestum bauðst, meðal margs annars, að láta reyna á skotfimi sína og hæfni í Counter Strike. Annars vegar í keppni um hver væri markvissasta Red Bull hetjan með því að ná að fella flesta á 60 sekúndum og hins vegar með því að ná sigri gegn Counter Strike-goðsögninni Arnari „Varg“ Ingvarssyni og geta þannig talist Ljósleiðaraskyttan.
Veislustjórnin var í öruggum höndum Árveigar Lilju „Nutella“ Bjarnadóttur, fyrirliða íslenska kvennalandsliðsins í Counter Strike, sem var með alla þræði í hendi sér og lét sér til dæmis ekki muna um að vera sú eina sem náði að leggja goðsögnina „Varginn“ að velli.