Vörumerkjastofan Brandr hélt á dögunum níundu Charge Awards-vörumerkjaráðstefnu sína í Lissabon í Portúgal undir yfirskriftinni CHARGE – Powering Energy Brands.
Á ráðstefnunni er einblínt á vörumerki í orkugeiranum og verðlaun veitt þeim sem skara fram úr.
Þau vörumerki sem viðurkenningar hlutu á hátíðinni voru orkufyrirtækin Baker Hughes fyrir nýsköpun á fyrirtækjasviði (e. B2B Energy Innovator of the Year), E.on, fyrir besta vörumerki á heimsvísu (e. Worlds Best Established Brand), Edp fyrir að vera besta græna vörumerki í heimi (e. Worlds Best Green Brand), Sustainable Energy For All sem fékk stimpilinn stofnun ársins (e. Organization of the Year) og Red Rocket sem var útnefnt heimsins besta áskorunarvörumerkið (e. Worlds Best Challenger Brand).
Að sögn Írisar Mjallar Gylfadóttur framkvæmdastjóra Brandr komu 200 manns saman á ráðstefnunni til að ræða uppbyggingu vörumerkja í orkuiðnaði, innri og ytri markaðssetningu þeirra og vaxtarskilyrði í orkugeiranum.
Alþjóðlegir sérfræðingar
Ráðstefnan var haldin í höfuðstöðvum EDP (Energie de Portugal), stærsta orkufyrirtækis Portúgals, með yfir 5.800 starfsmenn og er eitt af leiðandi fyrirtækjum í endurnýjanlegri orku á heimsvísu.
Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru alþjóðlegir sérfræðingar á sviði orkumála meðal annars frá Statkraft, EWII, TENNET, GALP, ENEA, ContourGlobal, DNV, Green By Iceland, Orkusölunni o.fl.
Íris segir að þarfar umræður hafi farið fram og unnið hafi verið í vinnustofum í öflugu samfélagi sérfræðinga sem allir brenni fyrir því að styrkja og efla orkugeirann. „Það er gaman að segja frá því að eitt af því sem kom sterkt fram er hversu mikilvægt það er fyrir öll fyrirtæki að hugsa um vinnustaðinn sem vörumerki. Það er margsannað að þegar starfsmenn eru stoltir af vörumerkinu sínu þá eykur það velgengni fyrirtækisins og ánægju viðskiptavina,“ segir Íris að lokum.