fös. 22. nóv. 2024 08:24
Nú geta litlir aðdáendur sjónvarpsþáttanna um Blæju og Báru stigið beint inn í veröld þeirra systra, í Brisbane Ástralíu, og upplifað töfra þáttarins.
Hægt að heimsækja heimili hinna vinsælu Blæju og Báru

Nýjasta aðdráttaraflið í Brisbane, Ástralíu, er veröld Blæju. Gagnvirk fjölskylduskemmtun, sem nýlega opnaði og býður í fyrsta skipti aðdáendur hinna vinsælu sjónvarpsþátta um systurnar Blæju og Báru velkomna.

Blæja, líflegi, blái hvolpurinn, sem unnið hefur hug og hjörtu barna um heim allan er orðin ástralskt tákn. Nú geta litlir aðdáendur sjónvarpsþáttanna stigið beint inn í veröld Blæju og raunverulega upplifað töfra þáttarins.

Sögur hennar af hugmyndaríkum leik, fjölskylduævintýrum og hversdagslífi í Brisbane hafa ekki einungis gert hana að þekktu nafni heldur hefur hún nú komið höfuðborg Queensland í sviðsljósið.

Höfundur þáttanna er Joe Brumm og eru þeir framleiddir af Ludo fyrir ABC Kids. Þeir eru nú sendir út í yfir sextíu löndum, m.a. hérlendis, og fáanlegir á helstu streymisveitum eins og Disney+.

 

Upplifa raunstærðir Blæju og Báru

Í 4.000 fermetra byggingu við Brisbane-ána í Northshore Hamilton-hverfinu í Brisbane er hægt að upplifa sjötíu mínútna fjölskylduskemmtun þar sem gestir eru leiddir inn í eftirlíkingu af heimili Heeler-fjölskyldunnar (fjölskyldu Blæju). Hægt er að kíkja inn í stofu fjölskyldunnar, herbergi Blæju og Báru og út í bakgarðinn, þar sem þær leika sér svo oft. 

Þá er boðið upp á gagnvirka leiki, þrautir sem þarf að leysa og ýmislegt annað spennandi fyrir káta krakka.

Ólíkt öðrum skemmtigörðum, sem snúast flestir um ljósadýrð og fjörug leiktæki, þá snýst heimsóknin um að hvetja börn til að hverfa inn í ímyndaðan heim og að vinna í teymi, rétt eins og Blæja og Bára eru svo duglegar við að gera.

Heimili Blæju og Báru hefur orðið kærkomið aðdráttarafl fyrir fjölskyldur í Brisbane og fyrir ferðamenn lengra að og kjörið tækifæri til að kynnast þessum frægu sjónvarpspersónum.

 

BBC

til baka