Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur farið þess á leit við íslensk stjórnvöld að hagnaðardrifin starfsemi Sorpu verði færð í hlutafélag til að tryggja að tekjuskattur sé greiddur af starfseminni.
Fram kemur í tilkynningu, að ESA hafi í kjölfar kvörtunar verið með til meðferðar mál er varði meinta ólögmæta ríkisaðstoð til Sorpu í formi undanþágu frá tekjuskatti.
Röskun á samkeppni
„Sorpa býður upp á fjölbreytta þjónustu auk þess sem að sinna meðhöndlun á heimilisúrgangi þá rekur Sorpa stórar móttöku-, förgunar- og endurvinnslustöðvar fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Vegna stöðu sinnar sem samvinnufélag í eigu sveitarfélaga þá er Sorpa undanþegið greiðslu tekjuskatts og telur kvartandi það fela í sér röskun á samkeppni,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram, að árið 2023 hafi ESA upplýst íslensk stjórnvöld um bráðabirgðaniðurstöðu sína að undanþága Sorpu frá tekjuskatti fæli í sér „viðvarandi aðstoð“ þar sem ráðstöfunin hefði verið í gildi frá því fyrir gildistöku EES-samningsins.
Samrýmdist ekki lengur EES-samningnum
ESA komst að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að umrædd ríkisaðstoð samrýmdist ekki lengur EES-samningnum og því bæri að afnema hana. Þar sem tekjuskattsundanþágan telst viðvarandi aðstoð þurfa íslensk stjórnvöld ekki að endurheimta aðstoð sem veitt hefur verið áður, segir í tilkynningunni.
Þá segir, að íslensk stjórnvöld hafi fallist á röksemdir ESA og hafi í kjölfarið rætt mögulegar lausnir við ESA. Á grundvelli þeirra úrræða sem íslensk stjórnvald hafi borið undir ESA hefur ESA í ákvörðuninni í dag lagt til nokkrar aðgerðir, þar á meðal að hagnaðardrifin starfsemi Sorpu færist yfir í hlutafélag sem ber tekjuskatt. Það myndi stuðla að því að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði og að farið sé að EES-rétti.
Geta hafið formlega rannsókn
Tekið er fram, að íslensk stjórnvöld hafi nú einn mánuð til að tilkynna ESA hvort þau samþykki umræddar aðgerðir.
„Ef íslensk stjórnvöld fallast ekki á tillögurnar getur ESA hafið formlega rannsókn á málinu. Verði aðgerðirnar samþykktar þarf Ísland að hrinda þeim í framkvæmd fyrir 1. janúar 2027.“