Portúgalska knattspyrnufélagið Porto lagði fram 25 milljón evra tilboð í íslenska landsliðsframherjann Orra Stein Óskarsson í sumar.
Það er danski miðillinn Tipsbladet sem greinir frá þessu en framherjinn, sem er tvítugur, gekk til liðs við Real Sociedad í sumar frá FC Köbenhavn fyrir 20 milljónir evra.
https://www.mbl.is/sport/fotbolti/2024/11/11/islendingurinn_einn_sa_verdmaetasti_i_heimi/
10 milljónir evra til viðbótar
Í frétt Tipsbladet kemur meðal annars fram að Porto hafi verið tilbúið að borga 15 milljónir evra fyrir leikmanninn til að byrja með og þá hefði Köbenhavn fengið 40% af söluverðinu ef Orri yrði seldur frá Portúgal.
Porto var svo tilbúið til þess að greiða Köbenavn 10 milljónir evra til viðbótar, í tveimur greiðslum, gegn því að Köbenhavn fengi aðeins 20% af sölu á leikmanninum í framtíðinni.
Eins og áður sagði gekk Orri til liðs við Real Sociedad í sumar fyrir 2,9 milljarða íslenskra króna en 25 milljónir evra samsvara 3,6 milljörðum íslenskra króna.