Þúsundir Grikkja þrömmuðu um stræti Aþenu, höfuðborgar landsins, í mótmælaskyni eftir að allsherjarverkfall hófst í einn sólarhring. Fólkið kom saman til að mótmæla bágu efnahagsástandinu og almennri dýrtíð.
Verkfallið hefur víðtæk áhrif um allt land, en opinber þjónusta liggur niðri sem og hluti samgöngukerfisins.
Um 15.000 manns söfnuðust saman í Aþenu en einnig í fleiri borgum landsins. Um 4.000 manns mótmæltu í Þessaloníku, sem er önnur stærsta borg landsins.
Verða að bregðast við
Landssamband stéttarfélaga í Grikklandi (GSEE) segir að verkfallið sé viðbragð við aðgerðarleysi stjórnvalda til að tryggja almennu verkafólki sómasamleg kjör.
„Ríkisstjórnin verður að átta sig á því að velsæld samfélagsins treystir á velsæld verkafólks,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.
Þau segja að stjórnvöld verði að bregðast við þegar í stað til að draga úr verðhækkunum, lækka húsnæðisverð og stuðla að hærri launum.
Samgöngur lamaðar og opinber þjónusta liggur niðri
Verkfallið hefur haft áhrif á samgöngur, m.a. á ferjusiglingar á milli meginlandsins og eyja í Eyja- og Jónahafi.
En áhrifanna gætir víða, en lestar- og strætisvagnasamgöngur liggja niðri og þá hafa starfsmenn í skólum, við dómstóla og sjúkrahús lagt niður störf.
Grískur almenningur er afar ósáttur við hækkandi verð á matvörum, en þolinmæði þeirra gagnvart síhækkandi húsnæðisverði, ekki síst í Aþenu, er á þrotum. Meðallaun í landinu eru aðeins á bilinu 1.000 til 1.500 evrur á mánuði, sem jafngildir um 150.000 til 215.000 kr. á mánuði.
Ársverðbólgan í október mældist 2,4%.