mið. 20. nóv. 2024 16:39
Utanríkisráðuneyti Úkraínu bendir á að það sé daglegt brauð að Rússar hóti loftárásum. Á mynd er Síbiha Andríj, utanríkisráðherra Úkraínu.
Vinaþjóðir Úkraínu kyndi undir „sálfræðihernað“ Rússa

Vinaþjóðir Úkraínumanna lokuðu margar sendiráðum sínum í Kænugarði eftir að þeim barst hótanir um „gríðarstóra loftárás“ á borgina. Úkraínumenn gagnrýna þjóðirnar fyrir að kynda undir „sálfræðihernað“ Rússa.

Gerist þetta skömmu eftir að Úkraínumenn skutu langdræg­um eldflaugum úr vopnabúri Bandaríkjamanna á rússneskt yfirráðasvæði. Talið er að stjórnvöld í Moskvu leiti nú leiða til að svara Úkraínumönnum í sömu mynt 

Rússnesk stjórnvöld hafa sakað Joe Biden, fráfarandi Bandaríkjaforseta, um að draga stríðið á langinn með því að heimila Úkraínumönnum að nota flugskeytin, en það gerði hann eftir að Rússar létu sprengjum rigna víða um Úkraínu og hæfðu meðal annars orkuinnviði í landinu. 

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/11/20/bandariska_sendiradid_i_kaenugardi_varar_vid_aras/

„Nákvæmar upplýsingar“ um loftárás

Bandaríkin voru fyrst til þess að loka sendiráði sínu í Kænugarði fyrir almenning og sögðu yfirvöld hafa fengið „nákvæmar upplýsingar um möguleika á umtalsverðri loftárás“ í dag.

Frekari upplýsingar veitti sendiráðið ekki.

Grikkland, Ungverjaland, Ítalía og Spánn, sem öll eru aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, fylgdu fordæmi Bandaríkjamanna og lokuðu aðstöðum erindreka sinna í úkraínsku höfuðborginni.

Úkraínskir ráðamenn hafa gagnrýnt lokanirnar og biðluðu til bandamanna sinna að dreifa ekki frekari ótta um úkraínska samfélagið.

Stjórnvöld í Kænugarði segja að þær „upplýsingar“ sem Bandaríkjamenn vísuðu til virtust vera „aðgerð í sálfræðihernaði“ Rússa, sem væri með þessu að reyna að veikja Úkraínumenn.

„Við minnum ykkur á að hótanir um árásir frá árásarþjóðinni hafa því miður verið daglegur raunveruleiki fyrir Úkraínumenn í 1.000 daga,“ segir úkraínska utanríkisráðuneytið í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/11/17/thad_stodvar_enginn_putin_med_simtali/

„Fölsuð“ skilaboð

Leyniþjón­usta Úkraínu, GUR, segir að „fölsuð“ skilaboð væru í dreifingu á samfélagsmiðlum sem gæfu til kynna að stór sprengjuárás væri vofandi yfir Kænugarði.

„Hryðjuverkaríkið er að framkvæma gríðarstóra upplýsinga- og sálfræðilega árás gegn Úkraínu,“ skrifar GRU í yfirlýsingu.

Innrásin í Úkraínu er nú á sínu þriðja ári og sigur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur stefnt framtíð stríðsins í ákveðna óvissu þar sem repúblikaninn hefur ítrekað gagnrýnt stuðning Bandaríkjamanna við Úkraínu.

Slíkar yfirlýsingar hafa vakið ugg í Úkraínu og Evrópu allri þar sem óljóst er hversu vel Úkraínumenn ráði við innrás Rússa án stuðnings Bandaríkjanna.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/11/20/fordaema_akvordun_um_jardsprengjur/

til baka