mið. 20. nóv. 2024 16:56
Viktor Gyökeres fagnar einu af fjórum mörkum sínum í gærkvöldi.
Svíanum halda engin bönd

Markahrókurinn Viktor Gyökeres skoraði fernu fyrir Svíþjóð þegar liðið vann stórsigur á Aserbaísjan, 6:0, í 1. riðli C-deildar Þjóðadeildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi.

Svíþjóð vann þar með riðilinn og tryggði sér um leið sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar. Aserbaísjan er fallið niður í D-deild.

Auk þess sem Gyökeres skoraði fernu skoraði Dejan Kulusevski, sóknartengiliður Tottenham Hotspur, tvennu.

Sóknarmaðurinn, sem leikur með Sporting í Lissabon, hefur verið óstöðvandi á tímabilinu þar sem Gyökeres hefur skorað alls 32 mörk í aðeins 24 leikjum í öllum keppnum fyrir félags- og landslið.

Alls eru mörkin 23 í 18 leikjum fyrir Sporting og níu í sex leikjum fyrir Svíþjóð þegar nóvember er ekki enn úti.

til baka