mið. 20. nóv. 2024 23:30
Ný flugbraut flugvallarins í Nuuk.
Boða byltingu í flugi til Grænlands

Til stendur að opna nýjan flugvöll í höfuðborg Grænlands, Nuuk, þann 28. nóvember. Fram til þessa hafa stærri farþegaflugvélar ekki haft kost á að lenda í Nuuk.

Um er að ræða fjárfestingu sem nemur 305 milljónum bandaríkjadala eða liðlega 43 milljörðum íslenskra króna og mun flugvöllurinn búa að 2.200 metra flugbraut og nýjustu tækjum og tólum til að taka á móti stærri farþegaflugvélum.

Fluttu áður 37 farþega í senn

Morgunblaðið greindi frá opnun nýs flugvallar fyrr í mánuðinum og ræddi við Vigfús Vigfússon, sem sér um Grænlandsflugið hjá Icelandair Cargo.

Vigfús sagði í viðtalinu að hingað til hafi litlar Dash 8-200 sem taka 37 farþega verið notaðar til Grænlandsflugs.

 

„En nú opnast tækifæri þegar hægt verður að fljúga til Nuuk með stærri vélum og við höfum fengið fyrirspurnir frá Grænlendingum um fiskútflutning sérstaklega. Þeir sjá tækifæri í að nýta okkar dreifikerfi frá Keflavík í allar áttir,“ sagði Vigfús.

Í tilkynningu frá þeim sem standa að stækkuninni segir að vænta megi lægra fargjalda og styttri ferða með tilkomu flugvallarins.

Fyrirtækið bindur vonir við að flugvöllurinn komi til með að auka umsvif Grænlands þegar kemur að viðskiptum, rannsóknum og ferðamennsku.

 

Fyrsta skref í átt að bættum samgöngum

Ásamt flugbrautinni stendur til að reisa nýja flugstöð og flugturn og hefur Air Greenland þegar boðað beint áætlunarflug á milli Nuuk og Kaupmannahafnar og fleiri borga í Danmörku.

United Airlines áformar að fljúga beint tvisvar í viku á milli Nuuk og New York í sumar.

Í tilkynningunni segir enn fremur að opnun flugvallarins í Nuuk sé fyrsta skref í átt að betri flugsamgöngum á Grænlandi. Til stendur að opna nýja flugvelli í Ilulissat og Qaqortoq.

til baka