Íslendingalið Magdeburg tapaði enn einum leiknum í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla þegar liðið heimsótti botnlið RK Zagreb og laut í lægra haldi, 22:18.
Magdeburg hefur nú tapað fimm af átta leikjum sínum til þessa í riðlinum og er í sjöunda sæti af átta liðum með fimm stig. Zagreb er áfram á botninum en nú með fjögur stig.
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg og Ómar Ingi Magnússon skoraði eitt.
Matej Mandic, markvörður Zagreb, reyndist Þýskalandsmeisturunum erfiður ljár í þúfu þar sem hann átti ótrúlegan leik og varði 20 skot, sem gerir 54 prósent markvörslu.