mið. 20. nóv. 2024 20:33
Son Heung-Min í leik með Suður-Kóreu gegn Kúveit í síðustu viku.
Getum lært ýmislegt af Palestínu

Son Heung-Min, fyrirliði Suður-Kóreu og Tottenham Hotspur, hrósaði liði Palestínu eftir að liðin gerðu jafntefli, 1:1, í undankeppni HM 2026 í knattspyrnu karla í gær.

Leikurinn fór fram í Amman í Jórdaníu þar sem ekki er leikhæft í Palestínu vegna stríðsástandsins þar í landi.

„Leikurinn í dag var ekki auðveldur. Ég vil klappa palestínska liðinu lof í lófa þar sem við sáum það leggja svo hart að sér þó það búi við mjög erfiðar aðstæður.

Ég tel okkur geta lært ýmislegt af þeim,“ sagði Son við fréttamenn eftir leikinn í gær.

Suður-Kórea er á toppi B-riðils þriðja stigs undankeppninnar og er komið langt með að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.

Palestína er á botninum með aðeins þrjú stig eftir sex leiki en á enn möguleika á því að komast í umspil þar sem enn á eftir að spila fjóra leiki í riðlinum.

til baka