Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hafnaði í þriðja sæti í fjórða riðli B-deildarinnar í Þjóðadeildinni. Það varð ljóst eftir skellinn í Cardiff á þriðjudagskvöld, 4:1. Fram undan er því umspil um að halda sætinu í B-deildinni í staðinn fyrir að fara í umspil um sæti í A-deild. Mögulegir andstæðingar Íslands eru Slóvakía, Kósovó, Búlgaría og Armenía. Dregið verður á morgun og fara leikirnir fram 20. og 23. mars.
Ójafnvægi í hópnum
Sóknarleikurinn er virkilega spennandi og framherjaparið sem Orri Steinn og Andri Lucas skipa nær betur og betur saman. Þeir eru ungir og eiga bara eftir að verða betri. Þar fyrir aftan var miðjan of misjöfn í leikjunum sex. Á milli þess sem hún stýrði leikjum vel með baráttu, ró og gæðum þá missti hún stjórn. Það er alltaf ákveðin áhætta sem fylgir því að hafa tvo frammi og fækka á miðjunni um leið.
Íslenska liðið er ekki með mulningsvélina sem Aron Einar Gunnarsson var á miðjunni þegar Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson skipuðu skemmtilegt framherjapar sem fór með íslenska liðið á lokamót EM og HM.
Vörnin er því ekki eins vel vernduð og fær Ísland á sig mun fleiri mörk en þegar liðið var upp á sitt allra besta. Þá hjálpuðu leikbönn og meiðsli varnarmanna í síðasta verkefninu ekki neitt. Það er skortur á miðvörðum sem geta komist í landsliðsklassa í dag. Nóg er af skemmtilegum miðju- og sóknarmönnum.