fim. 21. nóv. 2024 00:40
Ásrún ræddi við mbl.is.
„Við bjuggumst frekar við rauðum jólum“

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarráðs Grindavíkur, segir það hafa komið á óvart að eldgos skyldi hefjast núna. Maður hennar og eldri dóttir þurftu að rýma Grindavík undir háum lúðrablástri.

Ásrún og fjölskylda hennar hafa dvalið í Grindavík að mestu síðustu tvo mánuði en hún var ekki heima hjá sér í kvöld vegna funda sem voru á dagskrá í Reykjavík í fyrramálið.

Maður hennar og eldri dóttir voru samt í Grindavík og þurftu að rýma húsið undir háum lúðrablástri viðvörunarlúðra.

„Það fara bara lúðrarnir í gang og þá fóru þau af stað,“ segir hún en bætir við að hún telji að maðurinn og dóttirin hafi einnig fengið smáskilaboð.

Undir allt búin

„Þetta gerðist bara mjög snöggt og við bjuggumst frekar við rauðum jólum heldur en á þessum tíma,“ segir hún. 

Hún segir að fjölskyldan sé undir allt búin í ljósi þess að hún er búsett í Grindavík og að vel hafi gengið að rýma. Þau keyrðu Nesveginn úr bænum.

Fjölskyldan er með íbúð í Grafarholtinu og verður þangað til hún getur snúið aftur í Grindavík.

„Þegar það er óhætt þá förum við aftur til baka.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/20/beint_eldgos_hafid_vid_stora_skogfell/

til baka