fim. 21. nóv. 2024 01:09
Eiríkur þurfti einnig að rýma heimili sitt fyrir rúmu ári, þann 10. nóvember, þegar ljósmyndari mbl.is tók þessa mynd.
Heyrði ekki í lúðrunum: Afabarnið taldi gosið grín

Grindvíkingurinn Eiríkur Óli Dagbjartsson heyrði ekki í viðvörunarlúðrunum þegar þeir fóru af stað í kvöld. Þetta er í annað sinn sem hann heyrir ekki í lúðrunum þegar það byrjar að gjósa.

Eld­gos er hafið á Reykja­nesskaga eft­ir að auk­inn­ar jarðskjálfta­virkni varð vart nærri Sund­hnúkagíg­um. Eld­gosið hófst nærri Stóra-Skóg­felli kl. 23.14.

Hann var með elsta barnabarnið með sér í Grindavík og þegar kvikuhlaupið hófst þá var afastrákurinn farinn að sofa og Eiríkur horfði grunlaus á sjónvarpið. 

„Svo hringdi dóttir mín – mamma hans – í mig og sagði mér að það væri allt komið í gang [kvikuhlaupið]. Ég heyrði ekki í því [viðvörunarlúðrunum], því miður, og það er í annað skipti sem það gerist. Ég er pínulítið fúll, ég hélt ég væri með fína heyrn. En ég er að reyna að halda því fram að það sé alveg svakalega vel einangrað, húsið mitt,“ segir Eiríkur kíminn. 

Rætt var við Eirík fyrr í mánuðinum í tilefni af því að þá var liðið eitt ár frá hamförunum miklu í Grindavík.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/10/truir_ad_grindavik_geti_byggst_upp/

Bjarminn kom fyrr en áður

Hann segir að þá hafi hann haft hraðar hendur. Afabarnið var vakið – sem tók smá tíma þar sem hann hélt að um grín væri að ræða – en svo voru þeir komnir úr húsi. 

„Svo allt í einu var bjarminn kominn. Það er miklu fyrr en áður. Það liðu, finnst okkur, ekki nema einhverjar tíu mínútur frá því að lúðrarnir fóru í gang og þar til það var kominn bjarmi norðaustur,“ segir hann. 

Hann hyggst snúa aftur í Grindavík þó það sé leiðinlegt að þurfa að rýma.

„Það er eins og við mannskepnan getum öllu vanist og nú er þetta bara orðinn partur af tilverunni, að náttúran er að byrsta sig þarna norður af bænum. En ég trúi því að það versta sé búið þarna alveg í bakgarðinum hjá okkur.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/20/beint_eldgos_hafid_vid_stora_skogfell/

til baka