fim. 21. nóv. 2024 06:00
Myndin er tekin við Vegamót á Snæfellsnesi.
Sáu eldgosið brjótast út frá Snæfellsnesi

„Ég myndi segja að við höfum séð þetta 2-3 mínútum eftir að þetta kom upp. Bjarminn er orðinn rosa hár þegar við sjáum hann.“

Þetta segir Ríkarður Sigmundsson sem var á leið til Reykjavíkur ásamt félögum sínum, Gunnari Pétri Róbertssyni og Sæþóri Steingrímssyni, eftir frímúrarafund í Stykkishólmi þegar hóf að gjósa á tólfta tímanum í gærkvöldi.

Eiginkonan greindi frá lögregluaðgerð

Segir Ríkharður að eiginkona hans hafi hringt í hann rétt áður og greint honum frá því að það hlyti að vera stór lögregluaðgerð í gangi í Hafnarfirði þar sem hún hefði mætt lögreglubílum, sérsveitarbílum og fleirum á bláum ljósum eftir Reykjanesbrautinni.

Þeir félagar hafi verið rétt komnir yfir heiðina á Vatnaleið þegar þeir hafi séð rauðan bjarma í suðri.

„Allt í einu sáum við þennan svaka bjarma og þá skildum við hvaða lögregluaðgerð konan væri að tala um.“

Sáu glitta í hrauntungurnar

„Það er komið eldgos við Grindavík, hrópa ég upp fyrir mig,“ segir Ríkharður og segir þá hafa stoppað við kaffiskálann Vegamót til að taka myndir klukkan 23.20.

Spurður hvernig sjónin hafi verið segir Ríkharður hana engu líka. Í fyrstu hafi þeir einungis getað séð bjarmann en þegar þeir hafi nálgast þá hafi þeir byrjað að sjá hrauntungurnar.

„Það er svo heiðskírt, þetta er bara magnað. Ég öfunda fólk sem er að koma fljúgandi í morgunfluginu frá Bandaríkjunum.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/20/beint_eldgos_hafid_vid_stora_skogfell/

til baka