Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir að rýming fólks frá Grindavík og Bláa lóninu hafi gengið vel fyrir sig en eldgos hófst við Stóra Skógfell klukkan 23.14 í gærkvöld.
„Mér sýnist hafa dregið töluvert úr gosinu en Grindavíkurvegurinn er farinn í sundur og það eru kannski helstu tíðindi næturinnar. Við höfum góða reynslu á að koma Grindavíkurveginum í gagnið tiltölulega fljótt aftur. Það er mat vísindamanna að þetta gos sé ekki eins kröftugt og síðustu tvö gos,“ segir Úlfar við mbl.is.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/21/hraun_for_yfir_grindavikurveg/
Úlfar segir að áhyggjur manna núna beinist nú helst að Njarðvíkurlögninni en hraunið stefnir í átt að henni og klukkan 6 í morgun var það tæplega 600 metra frá henni. Hann segir að lögnin sé vel varin.
Hann segir að dvalið hafi verið í 50-60 húsum í Grindavík í gær.
„Rýmingin gekk ljómandi vel en það steðjaði svo sem engin hætta fyrir þá sem dvöldu í bænum miðað við staðsetningu gossins. Það var því engin asi á rýmingunni,“ segir Úlfar.
Hann segir að alltaf sé eitthvað um að vegfarendur á Reykjanesbrautinni stöðvi bíla sína í vegkantinum og vilji berja sjónarspilið augum en ekki hafi skapast nein vandræði vegna þess.
Allir viðbragðsaðilar orðnir mjög sjóaðir
„Þegar við fórum í að rýma Grindavík og svæðið í Svartsengi þá settum við upp lokunarpóst á Grindavíkurveginn upp við Reykjanesbraut og eins á Suðurstrandarvegi á bílastæði sem við köllum P1 við Fagradalsfjall. Þá er lokunarpóstur á Nesveginum við Hafnir,“ segir Úlfar.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/11/21/augu_almannavarna_a_mikilvaegum_innvidum/
Úlfar segir að allir viðbragðsaðilar séu orðnir mjög sjóaðir enda orðnir öllu vanir en gosið sem hófst í gærkvöldi er það tíunda á Reykjanesskaganum frá árinu 2021 og það sjöunda í röðinni í Svartsengiskerfinu.
„Þetta gengur ágætlega og tímasetningin á gosinu var heppileg fyrir okkur í ljósi þess að mjög var farið að hægjast á umferð og staðsetningin á því góð.“