Fjórir ferðamenn létust vegna metanóleitrunar eftir að hafa drukkið mengað alkóhól á vinsælum ferðamannastað í Laos, að því er talið er.
Tveir danskir ríkisborgarar létust, einn Bandaríkjamaður og ung áströlsk kona.
Að sögn BBC voru Danirnir tvær konur, 19 og 20 ára. Létust þær í Laos í síðustu viku.
Ferðamaður sem var með áströlsku konunni í för er í lífshættu, að sögn forsætisráðherra Ástralíu, Anthony Albanese.
Talið er að ferðamennirnir hafi orðið fyrir eitruninni er þeir voru úti á lífinu í bænum Vang Vieng.
Alls veiktust 12 ferðamenn, að sögn breskra og ástralskra fjölmiðla.