Rússar skutu í morgun langdrægri eldflaug (e. ICBM) í átt að Úkraínu í fyrsta sinn, að sögn úkraínskra yfirvalda.
Um stigmögnun í stríðinu er að ræða en stutt er síðan Úkraínumenn skutu langdrægri eldflaug, sem Bandaríkjamenn útveguðu þeim, á Rússland.
Eldlaugin sem Rússar skutu í morgun hafði ekki að geyma kjarnaodd, að sögn heimildarmanns innan úkraínska flughersins.
Flugherinn sagði í tilkynningu að rússneskar hersveitir hefðu í morgun skotið þó nokkrum tegundum af eldflaugum í átt að borginni Dnípró þar sem skotmörkin voru mikilvægir innviðir.
„Sérstaklega ber að nefna að langdrægri eldflaug var skotið frá Astrakhan-héraði í Rússlandi,“ sagði í tilkynningunni.
Heimildarmaður í flughernum sagði að þetta væri í fyrsta sinn sem Rússar hefðu frá innrásinni í Úkraínu notað slík vopn, sem geta hæft skotmörk í mörg þúsund kílómetra fjarlægð.
Vildi ekkert tjá sig
Þegar Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, var spurður á blaðamannafundi í morgun hvort Rússar hefðu skotið eldflauginni sagðist hann ekkert vilja tjá sig um málið.
Úkraínski flugherinn skaut niður sex eldflaugar Rússa en ekki kom fram í tilkynningu þeirra hvort langdræga eldflaugin hefði verið skotin niður.
Vilja komast hjá kjarnorkudeilu
Rússnesk stjórnvöld segjast vera að leggja eins mikið á sig og hægt er til að komast hjá kjarnorkudeilu.
„Við höfum lagt áherslu á það varðandi kjarnorkustefnu okkar að Rússland hagar sér af ábyrgð og leggur eins mikið á sig og hægt er til að leyfa ekki slíkri deilu að koma upp,“ sagði Peskov á blaðamannafundinum.
Stutt er síðan Vladimír Pútín Rússlandsforseti undirritaði tilskipun um víðtækari heimild Rússa til að nota kjarnorkuvopn. Litið var á þetta sem skýr skilaboð til Vesturlanda og Úkraínu.