Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Fredy Guarín glímdi við mikinn alkóhólisma þegar ferill hans stóð sem hæst.
Hann opnaði sig um baráttuna við bakkus í viðtali við ítalska miðilinn Calciomercato á dögunum en hann lagði skóna á hilluna árið 2021.
Kólumbíski miðjumaðurinn lék meðal annars með Inter Mílanó, Porto og Saint-Étienne á leikmannaferlinum en hann lauk ferlinum í heimalandinu með Milonarios.
Missti alla stjórn
„Ég byrjaði að skapa mér nafn á Ítalíu og þá hófust vandamál mín utan vallar,“ sagði Guarín í samtali við Calciomercato.
„Ég var alltaf drukkinn, tveimur dögum fyrir leik, síðan mætti ég í leiki þar sem ég skoraði eitt til tvö mörk og við unnum. Þetta hafði ekki áhrif á mig þá en ég drakk alls staðar. Ég var með fjölskyldu á þessum tíma og ég vissi að það sem ég var að gera sjálfum mér og þeim var rangt en ég hafði enga stjórn. Þetta varð til þess að Inter ákvað að losa sig við mig,“ sagði Guarín.
Æfði og drakk til skiptis
Miðjumaðurinn var meðal annars orðaður við Juventus á þessum tíma en ekkert varð úr skiptunum vegna vandamála leikmannsins utan vallar. Hann endaði svo í Kína og síðar í Brasilíu.
„Ég varð alkóhólisti í Kína. Ég æfði og drakk til skiptis. Ég fór svo til Brasilíu og þar gekk mér frábærlega allt þangað til að kórónuveirufaraldurinn skall á. Ég drakk allt upp í 70 bjóra á dag enda engar æfingar eða leikir. Ég var dauðadrukkinn í tíu daga samfleytt og vaknaði alltaf með bjór í hönd.
Ég prófaði einu sinni að hoppa af svölunum mínum þar sem ég bjó, en ég bjó í íbúð sem var á 17. hæð. Ég lenti í öryggisneti sem bjargaði mér en ég hafði ekki hugmynd um það hvað ég var að gera. Það var annaðhvort að hætta að drekka eða deyja. Ég vona að mín saga hjálpi öðrum í sömu stöðu,“ bætti Guarín við.