mið. 20. nóv. 2024 12:18
Seðlabankinn gæti breytt ákvæðum um eiginfjárkröfur og bindiskyldu upp á sitt eindæmi.
Eigið fé er dýrasta fjármögnunin

Hið svokallaða Íslandsálag hefur lagt auknar álögur á íslenska lántakendur um árabil eins og fjallað var um á morgunfundi SFF og SA í síðustu viku. Var þar nefnt til dæmis að sá sem skuldar 50 m.kr. í íbúðalán borgi 500 þ.kr. meira á ári í viðbótarvaxtakostnað vegna álagsins.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði á fundinum að Íslandsálagið væri samheiti yfir mjög íþyngjandi regluverk og hæstu sértæku skatta á fjármálafyrirtæki í Evrópu.

Benedikt segir í samtali við ViðskiptaMoggann að bankarekstur á Íslandi sé tiltölulega einföld starfsemi þar sem ekki er unnið yfir landamæri. Til þess ætti að horfa þegar verið sé að búa atvinnugreininni starfsskilyrði.

Spurður að því hvort hægt sé að afnema Íslandsálagið, og hvað þurfi til, segir Benedikt að margir þættir komi saman í Íslandsálaginu. Álögur vegi þar þungt og það sé annars vegar Alþingis að endurskoða regluverkið og skattaumhverfið. Hins vegar geti Seðlabankinn breytt ákvæðum um eiginfjárkröfur og bindiskyldu upp á sitt eindæmi.

Benedikt segir að vegna krafna um eiginfjármögnun þurfi íslenskir bankar að binda 50-100% meira eigið fé í íbúðalánum en bankar í Skandinavíu. Til dæmis bindi Svíar u.þ.b. 3-3,5% í hverju íbúðaláni. Þó sé áhættan álíka mikil. Þarna þurfi meira samræmi. „Það er ekkert lögmál að meðhöndla eigi öll lánasöfn eins. Það gæti verið minna álag á íbúðalánum sem eru áhættuminnst.“

Beðinn um að skýra nánar eiginfjárbindingu hvers íbúðaláns segir Benedikt að á bak við hvert lán sé samsett fjármögnun. „Hlutfall eigin fjár bankanna í hverju íbúðaláni er 7%, 25% koma í gegnum skuldabréfamarkaðinn og það sem eftir stendur er fjármagnað með innlánum. Eigið féð er dýrasta fjármögnunin því bankarnir íslensku eru með 10-13% eiginfjárkröfur. Hitt er á lægri vöxtum. Þess vegna kosta íbúðalánin meira hér en í Skandinavíu.“

Íslandsálagið staðreynd

Halldór Karl Högnason, forstöðumaður fjárstýringar Kviku, segir Íslandsálagið staðreynd. Hann segir að eins og fram kom á fundi SFF þá sé það helst stjórnvalda að gera eitthvað til að bæta umgjörð bankanna með t.d. lækkun sérstakra skatta, viðbótareiginfjárkrafna og blýhúðun reglna sem er umfram það sem þekkist annars staðar svo draga megi úr álaginu. „Á endanum kemur það niður á neytendum að vera ekki með jafn hagkvæmt fjármálaumhverfi og þjóðir sem við berum okkur saman við. Reikningsdæmið þarf að ganga upp. Háar eiginfjárkröfur á bankana kosta til dæmis gríðarlega fjármuni. Eigið fé þarf arðsemi og því meira eigið fé sem bankarnir eru með því meiri hagnað þurfa þeir að hafa til að það skili ásættanlegri arðsemi. Þú þarft á bankakerfinu að halda til að þjóna atvinnulífinu og eftir því sem hagkerfið stækkar þarf bankakerfið óhjákvæmilega að stækka með. Ef arðsemin er lág verður það dragbítur á hagvöxt. Þetta hangir allt saman.“

til baka