Hver hefur ekki lent í því að baka köku sem er of þurr? Þetta gerist oft þegar kakan hefur verið bökuð of lengi eða hitastigið ekki rétt. Stundum vantar meiri fitu í uppskriftina eða deigið hefur verið þeytt alltof mikið. En ekki örvænta það eruð til ýmis ráð til að bæta hana og gera gómsæta og raka.
Notið vökva
Ef kakan er of þurr eftir bakstur, sér í lagi ef um svampdeig er að ræða, er tilvalið að pensla kökuna með sírópi (einn hluti sykur á móti einum hluta vatns). Þannig fær kakan svolítið meiri raka í sig og dregur í sig bragð, kælið kökuna alveg áður en sykurblöndunni er hellt yfir. Ef kakan er mjög þurr og svolítið hörð að ofan má stinga nokkrum götum í hana áður en sírópinu er hellt út á kökuna.
Ávextir og safi
Ávextir innihalda töluverðan raka og geta gert kökuna safaríkari. Ef til dæmis formkaka er of þurr má alveg skera hana í þrjá hluta og setja ávexti og ber á milli. Jarðarber og hindber innihalda töluverðan raka og ágætt er að láta berin standa á borði með örlitlum sykri til að ná safanum úr þeim og hella honum svo með á kökuna. Aðrir ávextir sem eru blautir og henta vel eru mandarínur og appelsínur, einnig mangó og ananas. Bananar og epli henta ekki vel til að redda kökunni. Einnig má nota sultu á milli laga í kökum.
Krem eða rjómi
Ef kakan er þurr eftir að hún kemur úr ofninum er tilvalið að setja á hana gott lag af kremi, smjörkrem hentar ágætlega þar sem það er vel feitt, það bætir bæði áferð og bragð. Rjómi er líka tilvalinn bæði til að setja á kökurnar og einnig til að bera fram með þeim. Flestir Íslendingar þeyta rjóma en það er líka gott að bera fram óþeyttan rjóma og hella aðeins yfir sneiðarnar til að bleyta upp í þeim, þetta er mikið gert í Englandi.
Ávaxtasafar og mjólkurblöndur
Ef ekki er tími til að búa til síróp má nota ávaxtasafa svo sem appelsínusafa eða sítrónusafa og blanda svolitlu hunangi saman við ef þurfa þykir. Þessi lausn gefur kökunni vissulega bragð svo meta þarf hvort það passi. Einnig er gömul aðferð að setja smávegis vanilludropa saman við mjólk og hella svolitlu yfir þurrar kökur. Ágætt er að nota pensil til að hafa góða stjórn á magninu.
Eftirréttur í stað köku
Ef kakan er mjög þurr og ekkert af ráðunum hér að ofan hentar, er tilvalið að brjóta hana upp og nota til að búa til eftirrétt í glasi eða einhverskonar útgáfu af „Eton mess“ sem hentar sérlega vel ef marensinn er of þurr. Þessi réttur er enskur og inniheldur 3 grunnhráefni, þeyttan rjóma, jarðarber og marens en vel má nota svampbotna líka, um að gera að prófa sig áfram. Kjörið er að gera kökupinna úr of þurri köku, brjóta hana niður, hella svolitlum vökva yfir og rúlla upp í kúlu, síðan er tilvalið að hjúpa kökukúlurnar til dæmis með súkkulaði og velta upp úr hnetum eða kókósmjöli.
Hvað ber að varast til að koma í veg fyrir of þurra köku?
Stundum er gott að nota aðeins minna hveiti og blanda fitunni og sykrinum lengi saman áður en hveitið er sett út í. Gætið líka að því að nota rétt hlutföll og skoðið hvort þurfi aðeins meiri vökva í uppskriftina. Góð reynsla er af því að skipta mjólk eða vatni út fyrir jógúrt eða súrmjólk, það getur gert kökuna rakari og mýkri. Passið einnig vel hitann á ofninum og takið kökuna út í tíma því oft bakast hún aðeins eftir að hún hefur verið tekin úr ofninum.