lau. 7. des. 2024 11:40
Um 15% barna á aldrinum sex mánaða til fjögurra ára hafa verið bólusett fyrir inflúensu á höfuðborgarsvæðinu. Betur má ef duga skal.
Börnum boðin bólusetning

Börn frá sex mánaða til fjögurra ára eru sex sinnum líklegri en aðrir til að lenda á spítala vegna inflúensu. Þetta segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Á síðasta ári var þessum unga hópi fyrst boðið í inflúensubólusetningu en Ragnheiður segir að illa hafi gengið að ná til fjölskyldna.

Eftir tvær vikur höfðu 3% hópsins skilað sér. Heilsugæslan auglýsti þá og sendi foreldrum sms um að bólusetningin væri í boði. Foreldrar tóku við sér – nú hafa um 15% hópsins verið bólusett. „Betur má ef duga skal. Við skiljum að það sé bras að koma við á heilsugæslunni en hvetjum foreldra til að þiggja bólusetningu fyrir börnin áður en flensan skellur alveg á.“

Yfirleitt veikist fólk ekki ef það er bólusett að sögn Ragnheiðar en hún gerir þó þann fyrirvara að bólusetningin sé ekki full vörn vegna mismunandi gerða inflúensu. „Alla vega veikist fólk þá minna.“

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

til baka