lau. 7. des. 2024 12:09
Guðni Ágústsson varar við innflutningi á mjólkurkúm. Meðfylgjandi er gömul fréttamynd frá því þegar ráðherrann kyssti kúna.
Íslenska kýrin er byltingarkennd

Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra segir íslensku kúna vera eins og sportbíl í samanburði við erlendar „trukkakýr“ og að íslenskir bændur hafi unnið kraftaverk bæði í ræktunarstarfi og ekki síður í fóðuröflun og þróun búa sinna.

Morgunblaðið leitaði álits Guðna á niðurstöðu nýrrar skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands sem sýnir að ef íslenskum kúm yrði skipt út fyrir norrænar rauðar kýr gæti framlegð kúabúskapar í landinu aukist um 3,3 milljarða á ári. Íslenska mjólkurkýrin framleiði minni mjólk að meðaltali en helstu mjólkurframleiðslukyn nágrannalandanna og mikill rekstrarlegur ávinningur gæti orðið ef önnur kúakyn frá hinum norrænum löndunum væru notuð hérlendis.

„Á sínum tíma þegar ég var landbúnaðarráðherra lá ég undir feldi í níu mánuði um hvort leyfa ætti innflutning á norsku kúakyni. Svo reis ég upp og úrskurðaði að við skyldum fallast á tilraun um norskar rauðar kýr, íslenskar kýr og blendingskýr og tilraunin færi fram á Stóra-Ármóti. Þá gerðust þau ósköp litlu síðar að upp kom kúariða á Írlandi með þeim afleiðingum að um alla Evrópu loguðu eldar, þar sem menn voru að brenna kýr út af kúariðu.“

Guðni segir að þá hafi bæði kúabændur og íslenska þjóðin orðið hrædd og þeim óað við að láta sér detta þetta í hug og viljað bara íslenskar kýr.

Mörgum var brugðið

Guðni segir að mörgum hafi brugðið við þessi tíðindi frá Írlandi, jafnt bændum sem stjórnmálamönnum og almenningi. Við þessa atburði ákváðu 75% kúabænda að hafna tilrauninni.

„Nú er þetta komið upp eina ferðina enn og ég tek þessari skýrslu með mikilli varúð og efasemdum. Kostnaðurinn við að breyta fjósunum yrði óbærilegur og enginn stuðningur yrði við það af hálfu ríkisvaldsins.“

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag

 

til baka