Geirfuglinn og geirfuglseggið, sem eru í eigu vísindasafns Náttúrufræðistofunar Íslands, eru sjaldan til sýnis, líkt og þeir geirfuglar, sem geymdir eru í söfnum erlendis. Síðast voru þessir gripir sýndir á sýningunni Sjónarhorni í Safnahúsinu við Hverfisgötu árið 2015.
Þorvaldur Þór Björnsson starfsmaður Náttúrufræðistofnunar segir að hamirnir séu viðkvæmir fyrir raka og ljósi og þurfi að vera í sérútbúnum geymslum og því sjaldan teknir fram. Morgunblaðið fékk þó leyfi til að taka myndir af fuglinum og egginu.
Talið er að um 80 uppstoppaðir geirfuglshamir séu til í heiminum og 75 egg. Þorvaldur segir að geirfugl Náttúrufræðistofnunar sé ekki besta eintakið sem til er. Fuglarnir séu mismunandi eftir því á hvaða tíma árs þeir voru drepnir. Hamir fugla í vorbúningi hafi verið bestir og fuglinn, sem keyptur var til Íslands á uppboði í Lundúnum árið 1971, hafi ekki verið í besta búningnum. Einnig hafi uppstoppun á 19. öld verið misjöfn. „En hann er alveg þokkalegur,“ sagði Þorvaldur.
Gerði afsteypur af egginu
Þorvaldur segir að eggið, sem keypt var til Íslands frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum árið 1954, sé í góðu standi. Mynstrið á eggjum geirfugla er mismunandi líkt og á langvíueggjum. Því eru eggin sem til eru ólík og mörg þeirra hafa fengið nöfn og eru kennd við þá sem fyrst eignuðust þau.
Þorvaldur segir að breskur áhugamaður hafi gert afsteypur af mörgum geirfuglseggjum og fékk m.a. að gera afsteypu af eggi Náttúrufræðistofnunar fyrir Náttúruminjasafn Vestmannaeyja. Hann málaði eggin síðan nákvæmlega eins og fyrirmyndirnar.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag