Vegurinn um Súðavíkurhlíð er lokaður en snjóflóð féll á veginn í nótt eða snemma í morgun.
Atli Freyr Rúnarsson, verkstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, segir að vinna standi yfir að hreinsa veginn og verið sé að meta það hvort vegurinn verði opnaður fyrir almenning í dag en það yrði þá aðeins í stuttan tíma.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/12/26/buid_ad_opna_hellisheidi/
„Það féll nokkuð stórt flóð yfir veginn í nótt eða í morgun og fleiri minni flóð hafa fallið í morgun,“ segir Atli Freyr við mbl.is.
Fram kemur á vef Vegagerðarinnar, umferðin.is, að vegurinn um Ísafjarðardjúp sé ófær og verður hann ekki hreinsaður í dag. Þess í stað verði farið í að moka Dynjandisheiði en hún er sem stendur enn ófær.
Uppfært kl. 13.00:
Vegurinn um Súðavíkurhlíð er opinn og er á óvissustigi vegna snjóflóðahættu. Vegna snjóflóðahættu verður veginum lokað aftur kl. 16.00 í dag.